Það kemur að því fyrr eða seinna að maður gerir eitthvað ekki alveg rétt, servó eða stýring virka ekki eins og til er ætlast, og leiftursnöggt ná módelið og jörðin sambandi sem ekki er alveg samkvæmt áætlun. Meistarastykkið þitt er laskað. En ekki hafa áhyggjur, því, þó flumódelið sé brotið, þá er það alveg örugglega ekki ónýtt. Góðu fréttirnar eru þær að nær 80 prósent allra brotlendinga eru þannig að auðvelt er að gera við módelið með því að nota einfalda tækni og handbragð. Það er þetta sem ég ætla að tala um hér. Ég þarf líka að viðurkenna að ég hef sjálfur þurft að nota margar þessara aðferða sjálfur og þær virka mjög vel.

Sjúkrakassi fyrir viðgerðir

Fyrsta hjálp!
 • Glært pakkalímband
 • Ýmis lím: sekúndulím (fyrir frauð ef þú ert að fljúga þannig vélum), epoxý
 • Hitalímbyssa
 • Glerfíber eða bómullardúkur fyrir styrkingar
 • Balsastangir og/eða íspinnasspítur
 • Klæðningarefni
 • Straujárn
 • Beittur hobbý hnífur
 • Mjó töng (spóakjaftur)
 • Lóðbolti
 • Skæri

Tiltekt – ekki skilja neitt eftir

Ekki gleyma neinu.

Það fyrsta sem þarf að gera þegar maður kemur að brotlendingarstaðnum er að taka rafhlöður úr sambandi. Eftir það getur þú vorkennt sjálfum þér í smá tíma áður en þú byrjar að tína saman brotin; þetta er alveg í lagi og góður skilningur fyrir því í flugmódelheiminum. Þegar þú ert tilbúinn að halda áfram, þá skaltu taka upp hvern einasta hluta módelsins sem þú getur fundið; þetta er mjög mikilvægur hluti viðgerðarferilsins. Þegar þú kemur til baka á verkstæðið, þá getur þú byrjað á því að raða saman brotunum, og ef það vantar eitthvað, þá ábyrgist ég að það er akkúrat stykkið sem er erfiðast að búa til. Sem sagt, athugaðu að taka hvert einasta stykki með heim. Nú skulum við athuga hvernig best er að snúa sér í því að laga brot og skemmdir.

Hjólastellið – það fyrsta sem snertir

Hjólastellið fest aftur

Algengustu skemmdir á flugmódeli er þegar hjólastellið flest út eða rifnar af. Það er líka hjólastellið sem fyrst snertir jörðina og er þess vegna líklegast til að brotna af. Bæði nýjir og reyndir flugmenn eiga það til að láta módel ofrísa í lendingu og þá skellur módelið harkalega niður á flugbrautina og það reynir ógurlega á hjólastellið. Ef þetta gerist oft og ítrekað, þá er öruggt að krossviðar festingin sem heldur stellinu mun brotna.

Endursmíðin byrjar á því að hjólastellið er tekið af og allar tréflísar eru límdar aftur á sína staði. Notaðu þunnt sekúndulím til þess. Styrktu innviði stellfestinganna með glerfíber eða jafnvel gallabuxnaefni.

Ef um er að ræða frauðmódel, þá skaltu nota sekúndulím sem ekki skaðar frauðplast eða jafnvel epoxý lím (þó það bæti í þyngdina á módelinu) til að líma alla hluta á sína staði. Til að styrkja enn frekar má nota pakkalímband eða jafnvel trefjalímband.

Vængendar – endingargóðar viðgerðir

Pakkalímband er stundum það sem best á við

Ég hef séð margan góðan módelfugmann missa væng í lendingu og hrufla vængenda. Þetta er algeng skemmd, sérstaklega á lágþekjum. Það er best að reyna að koma í veg fyrir svona hrufl með því að verja vængendana. Það er ýmislegt til að markaðnum til þess, svo sem vængendadrag úr plasti og þekjuplast sem límt er undir endann. Báðar þessar aðferðir taka við áföllum ef vængendinn strýkst við í lendingu. En, ef þú ert eins og ég, þá er of seint að berja barnið þegar brunnurinn er dottinn í það. Hvernig er þá best að gera við?

Ný filma sett á

Fyrsta skrefið er að fjarlægja plastfilmutægjur og nota fylliefni til að gera vængendaann sléttan aftur. Það eru ýmsar vörur til, en ég hef náð besturm árangri með léttu sparsli sem hægt er að kaupa í hvaða málningarvöruverslun sem er. Það er auðvelt að strjúka svona sparsli á með spaða eða jafnvel debitkorti og það pússast mun hraðar en balsinn og gefur slétt og gott yfirborð. Klipptu plastfilmu sem skarast í það minnsta 15 til 20 millimetra við filmuna sem fyrir er. Hafðu straujárnið vel heitt til að þú getir teygt og togað filmuna á vængendann. Ef þú finnur ekki sama lit og er á vængnum, notaðu þá annan lit sem fer vel með þeim litum sem eru á módelinu og settu hann á báða vængenda. Þá lítur þetta ekki út eins og viðgerð þegar þú ert búinn. Og þegar þú ert búinn að laga endann, þá er ekki úr vegi að setja einhverja vörn undir, þó ekki sé nema bara trefjalímband eða boga úr stálvír.

Skemmd klæðning – auðveldast að laga

Úpps!

Önnur algengasta viðgerðin er göt á plastfilmu. Þess konar skemmdir koma þegar maður potar í gegnum filmuna þegar maður færir módelið til, ef maður rekur eitthvað í það, missir eitthvað á það, eða endar flugferðina uppi í tré. Þetta endar allt með því að það er komið gat á módelið. Þetta þarf að laga sem fyrst, því þetta kemur oftast í veg fyrir að módelið geti flogið rétt. Og smá gat stækkar alltaf í langa rifu og meira og meira af klæðningunni flagnar af módelinu við hvert flug.

Hægt er að gera bráðabyrgðaviðgerð á flugstað með því að setja bút af pakkalímbandi yfir gatið. Klipptu límbandið þannig að það nái minnst 20 millimetra út frá gatinu í allar áttir. Leggðu límbandið niður öðu megin við gatið og dragðu rifuna varlega saman á meðan þú leggur restina af límbandinu niður.

Göt í plastfilmu

Þegar heim er komið er ráð að gera varanlegri viðgerð. Fyrsta skefið er að ná í plastfilmu í sama lit og módelið. Það sést oft í samsetningarleiðarvísi hvers konar filma er notuð og hvaða litur. Ef skemmdin nær yfir marga mismunandi liti eða þú finnur bara ekki réttu filmuna, þá má oft nota glæra filmu til að laga módelið.

Bót straujuð á

Hvort sem þú notar filmu í réttum lit eða bara glæra filmu, þá eru skrefin sem taka þarf þau sömu. Athugaðu að straujárnið sé ekki mjög heitt og festu bótina öðru megin við rifuna. Byrjaðu í miðjunni og færðu þig út til endanna til að ekki komi krumpa í filmuna eða loftbólur undir hana. Togaðu nú bótina yfir rifuna til að loka henni og festu hana niður, aftur, með því að byrja í miðjunni og færa þig út til endanna. Nú getur þú hækkað hitann á straujárninu og rennt því yfir bótina til að festa hana endanlega niður og strekkja á henni. Þetta ætti nú að duga fram að næsta módeli.

Mótorfestingin – fremst í flokki

Nýjustu þriggja fasa rafmótorar sem notaðir eru á flugmódel eru öflugri og endingarbetri en þeir sem við höfðum bara fyrir nokkrum árum. Þessir vel byggðu orkuboltar bogna ekki eða brotna þó maður reki spaða í eitthvað. Orkan í svona ákomu flyst hins vegar yfir í mótorfestinguna, sem í mörgum tilfellum er veikbyggðari en mótorinn. Jafnvel vægasta spaðahögg getur orsakað verulegar skemmdir í kringum mótorfestinguna. En slíkar skemmdir er auðvelt að laga, oftast.

Ef um er að ræða frauðmódel, þá er best að líma alla lausa hluti aftur á sína staði með frauð-öruggu sekúndulími eða epoxý lími. Ef þú notar epoxý lím, þá skaltu varast að nota ekki of mikið af því, vegna þess að það bætir verulega í þyngdina á módelinu. Fylltu í öll göt sem eftir eru með frauð-öruggu sekúndulími og glerdufti (e. microballoons) og styrktu síðan svæðið með pakkalímbandi. Settu mótorinn aftur á og þú getur farið út að fljúga aftur.

Það tekur örlítið lengri tíma að laga balsamódel. Aftur þarf að líma alla hluta á sína staði með sekúndulími. Hægt er að nota 1,5mm balsa eða glerfíber með epoxý kvoðu eða sekúndulími, eftir því hvernig módelið er saman sett. Ég hef líka uppgötvað að spítur úr íspinnum virka frábærlega til að styrkja mótorsvæðið. Í sumum módelum er mótorinn festur á kassa; til að styrkja hann má nota trekantbasla innan í kassann. Þegar viðgerð er lokið má pússa allt slétt og síðan setja nýja klæðningu og/eða vélarhlíf.

Allt orðið gott

Nú ættir þú að geta flogið öruggur í þeirri vissu að ef eitthvað kemur uppá, þá getur þú lagað, og jafnvel bætt módelið. Eins og einhver sagði: „Ef þú ert ekki að krassa, þá ertu ekki að fljúga,“ en nú veistu að eitt lítið krass er ekkert endilega lokin á þínum flugmannsferli. Skemmtu þér!

Fengið úr Model Airplane News