Vængendi samlímdur

Mörg módel eru með ávala vængenda og vandinn við þá er að gera þá nógu sterka, en samt létta. Hér er afar góð aðferð þar sem notaðar eru ræmur af 1,5 eða 2mm balsa.

Byrjaðu á því að rista niður þann fjölda af ræmum sem þú þarft að nota í endann. Best er að nota 1,5mm basla, því hann bognar auðveldlega, en hægt er að fara í 2mm ef það er æskilegt. Breiddin á ræmunum er venjulega 6mm en stundum er gott að fara í breiðara, eða 8mm eða jafnvel 10mm.

Ræmurnar eru lagðar í bleyti í volgt vatn í að minnsta kosti klukkutíma, jafnvel lengur. Á meðan er hægt að saga formið á innri brún vængendans úr krossviði eða spónaplötu. Brúnin sem leggja á ræmurnar á er varin með pakkalímbandi eða gólfbóni.

Vængendi búinn til úr balsaræmum

Þegar allt er tilbúið er trélím (hvítt eða Titebond) borið á ræmurnar og þær lagðar saman í þá þykkt sem æskileg er. Sex 1,5mm gefa 9mm og fimm 2mm gefa 10. Þessi stæða er síðan lögð að forminu og ræmurnar látnar leggjast upp að því. Best er að byrja í miðjunni og vinna sig út. Breið gúmmiteygja er sett á ræmurnar til að halda þeim að forminu á meðan límið þornar. Það er líka hægt að nota farangursteygjur, en vegna þess að þær eru sívalar, þá þarf að setja a.m.k. 3mm millilegg undir hana. Annars myndast hol utan á vængendann.