Sunnudagur
síðasti dagurinn, en ekki sá sísti.

Viðgerðir á hjólastellinu

Sunnudagurinn byrjaði á því að við gerðum við hjólastellið á Douglasinum. Sambland af rigningu, hliðarvindi og fyrri skemmdum hafði gert það að verkum að hjólastellið losnaði. Steve sagði okkur hvernig við yrðum að gera við og Skjöldur fór og keypti balsavið og lím. Þegar hann kom aftur settum við tvo trekantlista undir stellfestingarnar og heltum tonnataki á mótorhúsið, sem var byrjað að spennast í sundur vegna bleytunnar. Eftir að viðgerðin var búin skoðaði Steve handarverk okkar og dæmdi vélina flughæfa.

Hálf skala Pitts að hverfa í reyk.

Á meðan hafði flug haldið áfram og nú voru enn fleiri áhugaverð módel á lofti. Nú flugu nokkur listflugsmódel, en það sem var einna áhugaverðast af þeim var hálf skala Pitts sem jós úr sér svo miklum reyk í propphangi einu sinni, að hún hreinlega hvarf og flugmaðurinn varð að lyfta henni upp úr reyknum til að sjá hvað hann var að gera. Það var ennþá þó nokkur hliðarvindur og hann gerði það erfitt fyrir nokkur módel að taka á loft og lenda, sérstaklega léttari vélar úr fyrra stríði. Það var athyglisvert að sjá hvernig flugmennirnir björguðu módelum sínum aftur og aftur, flug eftir flug. Til þess þarf verulega færni.

Svifflugumódel af mótorflugvél lendir með miklum hávaða. Það eiga að vera þrjú mótorhús á vængnum.

Eitt sérlega áhugavert módel var mótorlaus útgáfa af rússneskri flutningaflugvél. Módel af Agwagon flugvél dró hana í loftið og síðan sveif hún niður aftur. Á meðan verið var að draga hana í lofti, þá datt eitt gerfi-mótorhúsið af, en fannst seinna og einn áhorfandinn kom með það til baka. Þegar svifflugan lenti aftur, þá lét flugmaðurinn hana setjast á malbikið, frekar en grasið og þá heyrðist eitthvert það agalegasta skraphljóð sem hugsast getur.

C17 Globemaster. Stórt módel og ofboðslega vel smíðað.
Það er eitthvað við þetta módel …

Og svo kom C17 Globemaster. Við vorum búnir að sjá smá búta úr sjónvarpsþætti á Discovery Channel sem einn vinur okkar hafði tekið upp, þar sem verið var að smíða C17 módelið, en enginn okkar hafði séð alla þættina. Það var heillandi að sjá þegar verið var að gera módelið tilbúið. Var það í raun svona stórt? Myndi það geta flogið? Myndi Land Roverinn detta afturúr því? Spurningarnar voru endalausar og Colin Straus og hans lið svaraði þeim öllum á sama þægilega og þolimóða háttinn og við vorum farnir að búast við af enskum flugmódelmönnum.

Land Roverinn dettur, en engin fallhlíf. Úbbs!

Og C17 vélin flaug. Og afturúr henni stökk fallhlífarmaður sem sveif rólega undan vindi, langt í burtu. Einhver átti langa göngu í vændum. Næst áttum við að sjá 1/9 skala Land Rover á sérsmíðuðum palli detta aftur úr vélinni og svífa niður í fallhlíf. Bíllinn kom aftur úr vélinni, en fallhlífin opnaðist ekki. Bíllinn datt eins og steinn og sundraðist við hliðina á brautinni.

Við fengum líka að sjá fræga módelmenn. Jakob fékk að hitta einn mann sem hann hefur haldið uppá lengi, David Boddington, módelsmið og hönnuð til margra ára. Jakob hafði byggt AVRO 504 eftir teikningum Boddingtons og var í sjöunda himni að hitta manninn sjálfan.

Richard Rawle skoðar skemmdirnar á B25 módleinu. Það 
er hægt að gera við.

Allt í einu var kominn tími til að fljúga B25 módelinu hans Skjaldar. Við bárum það í startboxið og Steve sneri mótorana í gang. Vinstri mótorinn var eitthvað tregur að koma sér af stað, en náði loks snúningi og við héldum að módelið væri tilbúið. Steve gaf inn og flugvélin rann niður eftir brautinni. Um leið og hún lyfti sér, hægði vinstri mótorinn á sér og samvinna hliðarvinds frá hægri og hægri mótors á fullu urðu til þess að B25 vélin snerist snögglega til vinstri og skall aftur niður á brautina. Hún skemmdist dálítið, en þó ekki svo mikið að ekki sé hægt að gera við hana, svo hún flýgur aftur einhvern daginn.

Mustanginn hans Skjaldar er engin smásmíði.

Richard Rawle var búinn að gera ýmsar breytingar á vélarrými Mustangsins hans Skjaldar kvöldið áður og nú var hann tilbúinn í flug. Það gekk mjög vel og áhorfendur tóku honum mjög vel.

Þegar við komum aftur í pittinn, þá sagði Stephen Atherton okkur að Ali Machinchy eldri, eigandi Al’s Hobbies módelverslunarinnar, hefði komið við og sett fram tilboð í að kaupa Douglasinn. Hann sagði okkur að Sóldáninn í Marrakech væri áhugamaður um Douglas DC3 flugvélar og langaði til að kaupa þessa fyrir nokkur þúsund pund. Við sögðum Steven að segja okkur hinn brandarann sem hann kann, en að lokum kom í ljós að þetta var engin lygi og þá fóru samningaviðræður af stað. Að lokum keypti Sóldáninn módelið eftir að hafa séð myndir sem voru teknar af því og sendar til hans og Skjöldur fór heim með dálítið meira af peningum en hann hafði átt áður.

Og svo endaði flugsýningin í Cosford og við fórum heim aftur með helling af minningum, fullt af dóti sem við keyptum og helling af nýjum vinum. Og eitt er víst, að við ætlum að fara á Cosford aftur, ef ekki á næsta ári, þá árið þar á eftir; og þá ætlum við að hafa með okkur módel.