Lok, lok og læs

Hér er hugmynd um hvernig hægt er að búa til lás fyrir lok á flugmódel og hafa undir því aðgengi að rafhlöðum, eldsneytistanki eða servóum. Teikningin fyrir neðan sýnir að mestu hvernig þetta er gert.

Til að þetta virki þarf að vera fastur pinni öðrum megin á lokinu, sem fer í gat á skrokkrifi. Teikningin sýnir pinnann aftan á, en hann getur allt eins verið framan á. Á annað rif er síðan gerð rauf sem lásinn fer í. Lásinn er gerður úr stýrisarmi af servói. Í hann er snittaður M3 eða M4 bolti eða skrúfa. Þessu er komið fyrir á lokinu og boltinn er þræddur á servó arminn þar til hann fer inn í raufina og heldur lokinu nægjanlega niður. Það er hugsanlegt að það þurfi stýripinna á lokið til hliðar við lásinn, eða fals sem stýrir lokinu á réttan stað.

Þegar lokið er sett á er festipinnanum smokrað í gatið, lokið lagt niður og skrúfunni snúið þar til armurinn gengur inn í raufina. Til að losa lokið af er skrúfunni einfaldlega snúið í hina áttina.