Höfundur: Guðjón Ólafsson 
Grein skrifuð fyrir LMA Journal í apríl 2005


Hversu mikið þyrstir mann í að fljúga seint um vetur þegar maður hefur ekki getað hreyft módel frá þvi í október? Þú mátt trúa því að við vorum orðnir þyrstir. Mánuðirnir höfðu runnið hjá með vondum veðrum, vindi, myrkri og snjókomu: allt sem hægt er að finna upp til að koma í veg fyrir módelflug.


Kjartan að reyna að setja Super Sportster í gang. Takið eftir landslaginu.

Módelflug á norðanverðu Íslandi hefur verið mögulegt í öllum mánuðum ársins þar til núna. Veðrið í vetur hefur haldið okkur inni, sem gerir heilmikið fyrir mann ef maður vill og getur smíðað, en það kemur sá tími í lífi hvers módelflugmanns að hann vill fara út að fljúga.

Þá kemur veðurspá sem lofar að um helgina 27. og 28. febrúar verði fallegt veður, logn, sólskin og jafnvel ekki neitt sérlega kalt. Fullkomið flugveður.

Það var logn. Algert logn. Það var kalt. Ís-jökul kalt. Sólskin? – nei, ÞOKA.


Gummi að fljúga Apache. Hann var bara rétt að birtast þarna eftir að hafa horfið sjónum hans í nokkrar mínútur.

En við ákváðum að reyna samt. Ég fór með Greenley módelið mitt og Guðmundur var með Apache, ARTF byrjendavél, og Kjartan Super Sportster. Á meðan við ókum á Melana vonuðum við að þokan væri ekki neitt alltof þétt, en hún virtist bara ekki vilja lyftast.

Hefur þú séð þoku í frosti, lesandi góður? Áhrifin af því þegar vatnsdropar svífa um í hörkugaddi eru slík, að í hvert sinn sem dropi snertir eitthvað, þá frýs hann. Umsvifalaust! Við þetta verða öll tré eins og ógeðsleg hvít amerísk jólatré, umferðarskilti eins og stórir hvítir sleikipinnar og vegirnir verða þaktir glærasvelli. Þetta þekur líka bílana og maður er óratíma að skafa ísinn af bara til að sjá út um smá gat á framrúðunni.


Þetta er það sem maður kallar STÍLL ! Greenley tilbúinn til flugs. Ekki mikið útsýni.

Komnir á Melana. Fullkomnar aðstæður, nema maður sér ekkert. En við tökum módelin út úr bílunum og setjum þau saman. Fullir vonar og bjartsýni segjum við hver öðrum að ef maður sér enda á milli á flugbrautinni, þá sjái maður nóg til að fljúga flugmódeli. Og sem betur fer rofaði örlítið til og við fengum u.þ.b. 500 metra skyggni. Þegar okkur var litið upp sáum við heiðan himinn og við og við kíkti sólin á okkur, svo við byrjuðum að fljúga.

Eða öllu heldur byrjuðum að reyna að fá mótorana til að fara í gang. Kalt, rakt loft og módeleldsneyti fara ekki sérlega vel saman og enginn mótor tók við sér fyrr en við höfðum skrúfað stillinálar örlítið út, jafnvel á Quadra 35 bensínmótornum mínum. Eftir að hafa skrúfað nálar inn og út í rúman hálftíma virtist vera hægt að fara að fljúga.

Og það var sko ekki amalegt flug. Kalt loft er þéttara en hlýtt og þar með fljúga módel mun eðlilegar en annars. Maður getur flogið mun hægar í köldu lofti og allt lítur mun raunverulegra út.

Hverju klæðist maður þegar maður flýgur um vetur á Íslandi? Við eigum nokkuð sem við köllum „galla“, nokkurs konar einangraður samfestingur með rennilása utan á skálmunum og einn upp miðjan magann upp að hálsi. Einangrunin er slík að maður getur verið á skyrtunni í gallanum. Gallinn heldur á okkur hita. Vandamálið er hendurnar. Sumir hafa sérstök box fyrir sendinn eða poka með glugga ofaná og göt fyrir hendurnar. Loftnetið kemur síðan út um lítið gat á framhliðinni. Þeir sem hafa ekki slík húsgögn hafa bara lært að fljúga með hanska. Það er ekki erfitt og ef þeir eru ódýrir, þá má klippa þumal og vísifingur af, ef maður vill.


Hér er ísingin ansi þykk á vængnum …

Flug í þoku er mjög áhugavert. Maður vill ekki fljúga of langt frá sér. Venjulegur umferðarhringur gerir módelið ósýnilegt! Og þá fær maður undarlega tilfinningu. Maður sér módelið hægt og rólega leysast upp í loftinu og allt í einu er ekkert að sjá þar sem módelið var áður. Maður heyrir ennþá í því – maður dillar hallastýrispinnanum smávegis, maður beygir hliðarstýrispinnann örlítið, maður vonar að hreyfing á hæðarstýrinu setji módelið ekki í ofris og þá allt í einu, eins og draugur í lélegri hryllingskvikmynd byrjar módelið að líkamnast fljúgandi beint og í hæð, eins og bara Greenley getur gert. Vá, þetta var trekkjandi! Eftir um það bil 15 mínútna flug, sem tankurinn gefur, nokkrar lykkjur, ofrisbeygjur, lendingu eftir lendingu og flugtak eftir flugtak, verður maður að lenda og taxa inn. Það er ekkert grín að stoppa á ísaðri flugbraut fyrr en maður kemst upp á lag með að gefa fullt hliðarstýri þegar módelið er sest á hjólin og láta það renna út á hlið þar til það stoppar á hrímuðu grasinu við endann á brautinni – það er gaman.


… en þykkari á spaðanum. Þetta kom á eftir um 10 mínútna flug.

Meira flug. Í þetta sinn ætlar Kjartan að taka myndir á meðan Guðmundur og ég fljúgum hægt og lágt. Ég veit ekki hvort einhver hefur skrifað lærðar greinar um það hvernig ljósmyndarar og módelflugmenn eiga að staðsetja sig, en ef ekki, þá ættu þeir að gera það. Kannski hefði ég átt að staðsetja mig betur, en þar sem Greenley módelið sigldi fallega framhjá mér frá vinstri til hægri í ekki meira en meters hæð þá hvarf það allt í einu, ekki í þokuna, heldur á bak við Kjartan, sem var að taka myndir, og Guðmund, sem var að fljúga Apache módelinu sínu. Greenley módel virðist fljúga hægt. Það bregst jafnvel snöggt og vel við hreyfingum stýranna og er örugglega eitt af bestu módelunum sem ég hef smíðað og flogið, en í eins til tveggja metra hæð gerast hlutirnir hratt. Ég tók nokkur snögg skref afturá bak til að reyna að „aquire a visual“ eins og sagt er í spennumyndum, en á sama tíma skall módelið af afli á flugbrautina, reif hjólastellið undan og braut mótorinn framanaf. Þegar öll þessi byrði var farin af reis það tignarlega upp í loftið, stoppaði í sekúndubrot og féll síðan afturábak á stélið og braut það af. Hún brotnaði frekar illa og það var alltaf ætlunin að laga hana, en hugsanlega smíða ég bara nýja seinna.

Og hef ég lært eitthvað af þessu? Já, því er ekki að neita. Ætla ég að fljúga í þoku aftur? Þó getur bölvað þér uppá það: það er gaman! Það sem ég ætla ekki að gera er að fljúga fyrir aftan Kjartan og Guðmund aftur. Þeir geta gert módel ósýnilegt miklu hraðar en nokkur þoka með alvarlegri afleiðingum!