Föstudagur
Við vorum á ferðinni snemma á föstudagsmorgni og, eins og svo margir aðrir, á leið til Cosford. Skjöldur og Jakob fylltu sendiferðabílinn hans Steve með módelum, svo að hann gat bara haft með sér hálf-skala Zlininn: það var bara ekki meira pláss í bílnum.
Við Guðmundur fórum í safnið í Cosford og núna fengum við að fara inn í flugskýlin. Við byrjuðum á því að fara í bókabúðina. Við höfðum sjaldan séð annað eins safn af bókum um flugvélar og slepptum fram af okkur beislinu. Við keyptum svo margar bækur að það varð snemma ratljóst að við gætum engan vegin borið þær um allt safnið, þannig að við þurftum að fara með þær í bílinn fyrst. Kannski hefði verið viturlegra að enda í búðinni, eða hvað?
Safnið í Cosford er eitthvað sem allir flugáhugamenn ættu að skoða. Þarna er safnað saman alls konar flugvélum og tækjum þeim tengd, allt frá fyrstu dögum flugsins og fram á okkar daga. Það sem kom okkur mest á óvart var hversu stórar flugvélarnar eru. Þær eru miklu stærri en maður heldur eftir að hafa skoðað ljósmyndir eða kvikmyndir af þeim. Junkers Ju 52 vélin frá Þýskalandi til dæmis er RISASTÓR og V2 flugskeytið líka. Miklu stærra en maður hafði ímyndað sér. Á hinn bóginn er japanska sjálfsmorðsflugvélin Kirsuberjablómið svo lítið að það mætti smíða það í fullri stærð sem módel án þess að það verði mikil fyrirferð í því. Flóin fljúgandi frá Mignet gæti líka orðið áhugavert módel ef maður gerði smá breytingar á því til að það gæti í raun flogið. Það væri lítið módel þó það væri í hálfum skala.
Við hittum Steve, Skjöld og Jakob um hádegisbilið þegar við áttum enn eftir að skoða eitt flugskýli, en þeir voru þá að skríða inn eftir heilmikinn akstur frá Bristol. Við fengum okkur að borða og skoðuðum síðan síðasta skýlið saman. Þegar við komum út sáum við að heilmargir húsbílar og sendiferðabílar með húsvagna í eftirdragi höfðu raðað sér upp við hliðina á skýlinu eins og kappakstursbílar á ráslínu. Ég spurði engan hvers vegna, ég bara gerði ráð fyrir að þeir væru þarna í rólegheitum að sleikja sólskinið áður en þeir færu á sinn stað á tjaldstæðinu. Klukkan hálf fimm varð, hins vegar, allt brjálað og kappakstur virtist kominn af stað. Húsbílarnir og sendiferðabílarnir voru settir í gang og hentust í loftköstum út eftir einu því stærsta túni sem ég hef séð í Englandi. Hvað í ósköpunum var að gerast?
Þá rann upp fyrir okkur ljós: þeir sem komu með módel til að fljúga á sýningunni máttu tjalda við flugbrautina! Frábær hugmynd. Og nú var hafinn kappakstur um að koma sér fyrir á bestu stöðunum. Þetta leit út eins og hópur fólks sem hleypur í áttina að strætó og ætlar allt að ná sér í bestu sætin. Þetta gat orðið æsandi. Kannski eitt eða tvö slagsmál. Við vorum tilbúnir að taka þátt í þeim og sjá til þess að vinir okkar næðu góðum stað fyrir húsbílana sína og vagna. Þetta leit út eins og maður gæti ímyndað sér að gerðist á Íslandi og Víkingaskapið svall í okkur Guðmundi þegar við fengum far í sendiferðabíl formanns LMA, Dave Johnson.
En þegar við komum nær flugbrautinni þá var okkur ljóst að í staðinn fyrir slagsmál fram í rauðan dauðan fyrir bestu stöðunum, þá var þetta alveg einstaklega breskur atburður. Allir virtust hafa fyrirfram ákveðinn sess og vögnunum var raðað reglulega og beint upp með rétt bil á milli þannig að hægt væri að leggja bílum við hliðina á þeim eftir þörfum. Lítið spennandi það!
Brátt fóru menn að draga módelin sín út á flugbrautina og flug hófst. Ekkert rosalegt flug, en samt einstaka frábært módel. Það var greinilegt að stóru módelinum yrði ekki flogið fyrr en daginn eftir.
Um leið og LMA tjaldið opnaði gengum við Guðmundur í félagið. Það kom af stað umræðu í húsvagninum hans Steve. Vegna þess að fjöldi LMA félaga var að aukast á Íslandi og greinilegur áhugi fyrir að koma með módel á flugkomur félagsins, þá var ljóst að einhver yrði að taka að sér að gerast prófdómari fyrir LMA á Norðurhjara. Steve bað um að sá okkar sem hafði verið lengst í hobbíinu tæki þetta að sér og eftir að hafa borði saman bækur okkar var ljóst að ég var líklega búinn að stunda þetta lengst, þó ég væri að sönnu ekki elstur. Þar sem ég hafði líka þýtt mest af prófareglum BMFA á íslensku, þá væri líklegt að ég þekkti nógu mikið af reglunum til að taka prófdómarapróf.
Og það vildi til að einn umsækjandi hafði beðið Steve að halda fyrir sig flugpróf LMA þetta sama kvöld. Þetta var nú sett í gang og ég átti að fylgjast með prófinu og sjá hvernig Steve bæri sig að. Það sem kom bæði mér og manninum sem var að taka prófið á óvart var, að eftir flugið bað Steve mig um að gefa mitt álit á því hvernig manninum hafði gengið og segja til um hæfni hans til að fljúga. Ég velti málinu vandlega fyrir mér í smá tíma og komst síðan að þeirri niðurstöðu að ég gerði líkast til engum neinn greiða með því að vera góður við kallgreyið. Í heila mínútu listaði ég galla sem ég hafði séð á undirbúningi hans og flugi og eftir því sem ég nefndi fleiri ambögur, því daprari varð maðurinn á svipinn. Það var greinilegt að hann trúði ekki því sem var að gerast. Hann vissi sem var að flugið hjá honum hafði ekki verði upp á það besta, en þetta var nú helst til mikið. Þegar ég hafði lokið máli mínu sneri hann sér til Steves, sem, í staðinn fyrir að skella skollaeyrum við þessum uppistönduga útlendingi og bullinu sem hann hafði rutt út úr sér, samþykkti allt sem hann hafði sagt. Hann bætti þó nokkrum jákvæðum punktum við allt þetta neikvæða íslenska raus. Niðurstaðan var sú að ég náði mínu prófi og var orðinn fyrsti prófdómari LMA á Íslandi. En aumingja kallinn féll og verður að taka prófið aftur seinna.
Framhald …