Laugardagur
Og svo var byrjað að fljúga.
Ég held að enginn okkar sem kom frá Íslandi, nema ef til vill Skjöldur, hafi séð svona mörg módel saman komin á einn stað. Og það líka svona stór módel.
Fyrsta mál á dagskrá var að gera módelin hans Skjaldar tilbúin. Steve ók á sendiferðabílnum þangað sem hann vildi að við værum og við ruddum módelunum út úr bílnum og byrjuðum að setja þau saman, öll nema Mustanginn. Richard ætlaði að laga hann eitthvað til. Mótorinn í honum átti það til að ofhitna og hann ætlaði að búa til loftspjöld til að beina loftflæðinu yfir hann. Við stilltum líka nokkrum litlum íslenskum fánum í kringum módelin svo enginn væri í vafa um hvaðan þau væru.
Guðmundur og ég eyddum næsta hálftímanum í að taka myndir. Á meðan við gerðum það, þá var kallað saman á flugmannafund. Ókei, við erum ekki flugmenn, heldur aðstoðarmenn, svo við þurfum ekki að fara á fund. Við héldum bara áfram að taka myndir. Svo fórum við út fyrir girðinguna til að kíkja í fyrsta skiptið á sölubásana sem búið var að koma upp og seldu módelvörur til almennings á niðursettu verði. Allt í einu kom Skjöldur hlaupandi og sagði okkur að við fengjum ekki að fara inn fyrir girðinguna aftur. Allir meðlimir liðsins áttu að mæta á flugmannafundinn og fá þar smá límmiða sem heimilaði þeim að fara inn og út um hliðið á girðingunni.
Ekkert mál! Við förum bara og útskýrum fyrir þeim að við hefðum misst af fundinum og ættum að fá miða. En þegar við nálguðumst hliðið sáum við að hliðverðirnir voru engir venjulegir 50 kílóa aumingjar, heldur tvær stærstu og íllilegustu varðhundar sem nokkru sinni hafa varið inngang í það allra heilagasta af öllu heilögu. Þeir voru að vísu ekki með sjálfvirku vopnin sem hermennirnir höfðu haft, en þeir virtust ekkert síður hættulegir. Við nálguðumst þessi vöðvabúnt varlega og hvísluðum varlega til þeirra vandamál okkar. Okkur til mikillar furðu reyndust verðirnir vera þægilegustu náungar í heimi og þeir vísuðu okkur á sendageymsluna, en þar fengum við þessi eftirsóttu verðlaun: pínulítinnn límmiða sem búið var að prenta stafina „L.M.A.“ á. Við vorum hólpnir.
Það væri allt of langt mál og allt of leiðinlegt að lista öll þau módel sem við sáum, svo ég ætla bara að nefna nokkur sem voru sérlega áhugaverð..
Hálf skala Fokker DR1 módelið sem Dave Horton var með hlýtur að vera eitt stærsta flugmódel sem hefur flogið. Hann lítur ferlega vel út á jörðinni, efsti vængurinn nær meðalmanni í öx. Hann er ekki málaður í þessum venjulega Rauða Barón lit sem virðist vera á öllum þríþekjum, heldur í blöndu að ýmsum áhugaverðum litum. Hann flaug tignarlega, en eins og svo mörg módel af flugvélum frá fyrri heimsstyrjöldinni, þá vildi það ekki snerta jörðina aftur. Skriðþunginn í efsta vængnum kemur í veg fyrir að hægt sé að lenda nema rúlla á bakið. Við tókum líka eftir því að á módelinu var stafsetningarvilla: á einu lokinu ofantil á módelinu stóð „Öil“ í stað „Öl“, sem er þýska og þýðir olía.
Hinum megin við okkar módel voru tvíþekjurnar hans Ian Turney-Whites, Nieuport 28 og Bulldog. Þetta er gaur sem kann að smíða og fljúga flugmódelum.
Að sjá flokk af Wellington sprengjuvélum fljúga saman var afskaplega gaman. Þessi módel, sem flest eru smíðu af Ghost Squadron hópnum, eru risastór og að sjá þau fljúga í þéttri fylkingu nokkra sentimetra frá flugbrautinni er nokkuð sem maður gleymir ekki í bráð. Á sunnudeginum flugu nokkrar B17 og Junkers með þeim í lokaatriði flugkomunnar.
Vulcan spregjuvélin var líka svakaleg. Maður hreyfði sig ekki á meðan hún flaug. Það voru dálítil vonbrigði að Victor sprengjuvélin kom ekki og að Valiant sprengjuvélin flaug ekki. Það hefði verið áhrifamikið að sjá allar V-sprengjuvélarnar fljúga saman.
Og svo kom B52 sprengjuvélin. Við vorum búnir að lesa um þetta módel í módeltímaritum og höfðum heyrt sögur af því, en stærðin kom samt á óvart. Því miður fengum við ekki að sjá hana gera meira en bara aka hratt niður flugbrautina, vegna þess að það komu upp einhver stýringavandamál og flugtak misfórst.
BOAC Comet módelið, sem Steve Rickett flaug var enn eitt svakamódelið. Hvernig hafa þessir menn allan þennan tíma og fjármagn til að smíða þessar rosalegu flugvélar? Þegar Cometinn lyftist og fór að flúga, þá var hann ekki lengur módel. Það var algjörlega engin leið að sjá mun á módelinu og flugvél í fullri stærð. Svona á skalaflug að vera.
Íslenska liðið flaug einu sinni. Steve Holland flaug DC3 módleinu. Á meðan hann flaug sagði Ted Allison sögu flugvélarinnar í hátalarakerfið. Flugið tókst afar vel, nema að þegar Steve lenti því þoldi annað hjólastellið ekki hliðarvindinn og brotnaði. Ekkert mál, við gátum lagfært það.
RIGNING! Rétt fyrir ellefu fór að rigna. Og engin smá rigning. Allt varð gegnumblautt á stundinni. Sem betur fer hafði Steve Holland verið nógu skynsamur að hafa méð sér segl sem hægt var að breiða yfir módelin. Og jafnvel yfirbreiðslurnar eru stórar í Englandi, því eftir að hafa raða módelunum þétt saman þá gátum við ekki einasta breitt yfir öll íslensku módelin heldur líka Zlininn hans Steves og 1/3 skala Texaninn hans Ted Allisons. Allt sem ekki skemmdist við að blotna var síðan notað til að halda seglinu niðri. En eitt hornið virtist ætla að lyftast upp, svo Jakob tók að sér að redda því með því að skríða undir og vefja sig inn í seglið. Þar lá hann þar til stytti upp. Hvílík fórn! Sem betur fer stytti upp eftir u.þ.b. 45 mínútur og hægt var að byrja að fljúga aftur.
Rigningin beyglaði flugáætlunina dálítið og það varð ekki óalgengt að sjá flugmenn á harðahlaupum í vafa um hvort þeir áttu að fljúga eða ekki, skjótast í sendageymsluna til að sækja sendinn, og öskra á aðstoðarmennina, sem gerðu það eitt af sér að beina módelinu í eina átt þegar það hefði átt að snúa í hina. En þegar flugið var búið, þá var heimurinn í lagi. Aðstoðarmenn voru bestu menn sem hægt var að hugsa sér, rölt í sendagæsluna var friðsamleg athöfn, nokkur orð við aðra flugmenn, módelið komið á sinn stað, andað djúpt að sér, lífið var þess virði að lifa því.
Ég veit ekki hvort það var tilviljun, en þegar rigningin byrjaði um morguninn, þá vorum við Guðmundur nýbúnir að finna pínulítinn flóamarkað rétt fyrir aftan aðal sölutjöldin. Seinna um daginn ákváðum við að fara aftur á þennan flóamarkað og skoða hvað þar var til sölu, en um það bil sem við komum þangað fór aftur að rigna. Við hlupum eins hratt og við gátum að módelunum aftur til að breiða yfir þau, en í þetta sinn var flugáætlunin slegin af og flugi frestað þar til daginn eftir.
Framhald …