Hinir tveir

Hinir tveir liðsmennirnir frá Íslandi, Guðjón og Guðmundur, komu til Englands á fimmtudeginum fyrir Cosford sýninguna og byrjuðu á því að villast.

Það ætti að vera létt verk og löðurmannlegt að fara eftir M40 hraðbrautinni frá London til Birmingham, en, nei takk, við tókum rangan afleggjara og enduðum á hraðbraut M1 og fórum þar með frekar í norð-austur en norð vestur eins og til stóð. Að auki hafði einhverjum snillingi dottið í hug að bæta við nýjum hluta við M6 með tollhliðum eftir að kortabókin sem við vorum með hafði verið prentuð. Það er hreint kraftaverk að við enduðum ekki einhvers staðar í Skotlandi.

Guðmundur fær sér kaffi í Leifsstöð

Við fundum Telford að lokum (en þangað höfðum við reynt að stefna) og viltumst umsvifalaust aftur við að leita að hótelinu okkar. Við þurftum að hringja tvisvar í hótelið og fá leiðbeiningar (hver segir að karlmenn biðji aldrei um leiðbeiningar) og eftir að hafa ekið í hringi í dálítinn tíma fundum við smábæinn Ironbridge, en þar var hótelið sem við höfðum pantað. Það er ruglingslegt að aka öfugu megin á veginum og í hvert sinn sem við hægðum á okkur til að lesa á skiltin, þá kom óþolinmóður breskur ökumaður aftan að okkur og flautaði eins og hann fengi borgað fyrir það, þannig að við urðum að halda áfram í staðinn fyrir að stoppa. Hvernig er hægt að aka í Englandi án þess að missa vitið?

Eftir að þeir komust loks á hótelið fengu þessir tveir ferðamenn frábæra hugmynd: förum og finnum Cosford; þá getum við farið þangað snemma í fyrramálið og skoðað safnið allan daginn.

Það reyndist auðvelt að finna Cosford því að einhver góðhjartaður maður hafði sett upp röð af gulum skiltum sem vísuðu veginn að Stórmódelaflugkomunni. Allt í einu sáum við flugbrautir og stórt grænt skilti sem á stóð COSFORD. Við beygðum til vinstri og ókum (kanski ekkert sérlega hægt) að byggingum sem við héldum að væru safnið. Allt í einu stigu tveir illilegir hermenn með stórar hríðskotabyssur í veg fyrir okkur og spurðu okkur (alls ekki neitt kurteislega) hvert við værum að fara og hvað við ætluðum að gera þar. Við útskýrðum frekar taugastrekktir að við værum að leita að stóru módelunum og þá slökuðu hermennirnir sýnilega á og sýndu okkur hvert við hefðum átt að fara. Líta terroristar virkilega út eins og tveir viltir Íslendingar?

Við fórum aðeins lengra og fundum rétta staðinn. Við sáum meira að segja nokkra módelmenn að setja risamódelin sín saman fyrir framan tjöldin og húsbílana sem þeir gistu í og fórum að hlakka til flugkomunnar. Það kvöldaði hratt og við vildum fara að koma okkur almennilega fyrir á hótelinu, en þegar við komum að hliðinu, þá hafði einhver læst því með stórum hengilás. Við vorum læstir inni og hugsunin um að við þyrftum jafnvel að gista alla nóttina í litlum bílaleigubíl var ekki góð. Svo við fórum að leita að einhverjum sem gæti verið með lykil og eftir að hafa spurt þrjá eða fjóra menn sem við hittum, þá fundum við rödd Arthur Searl. Við hittum manninn aldrei í eigin persónu, en rödd hans er rödd þess sem ræður. Hann réð líka við það að lýsa fólki sem tekst að láta læsa sig inni eftir lokun. Við lærðum þarna þrjú ný orð í ensku. Ég fletti þeim upp eftir að ég kom heim og þau eru notuð til að lýsa á mjög litríkan hátt aðgerðum og vitsmunum fólks sem ekki er með heila eða hæfileikann til að nota hann. Þessi orð eru ekki af þeim toga sem hægt er að prenta á Netinu, þannig að ég set þau ekki hér.

Framhald …