… SEM ÞARF TIL AÐ SMÍÐA FLUGMÓDEL

Allir sem smíða flugmódel hafa einhvern tímann fengið spurninguna: „Hvaða verkfæri þarf maður að eiga til að smíða svona?“ Þessari spurningu er auðsvarað og hér er listi yfir það sem ég tel mikilvægast.

Í þessum lista eru nær eingöngu grunn verkfærin sem þarf til að geta byrjað. Athugaðu að ef þú hefur bara þessi verkfæri, þá getur þú lokið smíði á nær hvaða módeli sem er. En hafðu í huga að þegar maður á mikið af verkfærum og getur valið um aðferðir, þá verður smíðin auðveldari. Mín skoðun er að maður kaupir verkfæri þegar maður þarf á þeim að halda.

Listi yfir grunn verkfæri

Vinnuborð — Þú þarft borð eða bekk til að smíða á og síðan smíðabretti ofan á því. Smíðabrettið getur verið fjöl úr MDF með trétex eða loftaklæðningu límt á. Vinnuborðið verður að vera flatt.

Títuprjónar, teygjubönd og málaralímband — Þetta er notað til að halda hlutum saman á meðan límið þornar.

Hnífur — Hobbýhnífur með blöð númer 11. Þeir eru búnir til af ýmsum framleiðendum og seldir í nær öllum búðum sem versla með föndurvörur.

Rakvélarblað með bakka — Svoleiðis fást í öllum byggingavöruverslunum og eru notuð til að skafa málningu af gleri.

Bakkasög — Lítil bakkasög er notuð til að saga þykkari balsa og harðviðarstykki.

Skurðarmotta — Ekki skera á smíðabrettinu. Hægt er að fá góðar skurðarmottur í vefnaðarvöruverslunum og byggingavöruverslunum. Þéttur pappi virkar líka ágætlega.

Borvél og gott sett af borum — Þú þarft að bora alveg helling af götum. Kauptu borasett með stærðum frá 1mm upp í 6mm. Batteríborvél er líka nauðsynleg, helst lítil og létt.

Málm réttskeið, 30sm — Ég kalla þetta réttskeið frekar en reglustiku, því það er akkúrat það sem við notum þetta í. Svona réttskeið fæst í öllum byggingavöruverslunum.

Málm réttskeið, 100sm — Með svona réttskeið getum við skorið heilar balsaplötur á lengdina og rétt þær af ef þarf. Stundum gæti lengri réttskeið komið að gagni, en það er afar sjaldan.

Þríhyrningur — Fæst í verslunum sem selja skrifstofuvörur og teikniáhöld. Svona þríhyrningur er gagnlegur þegar kemur að því að líma hluti saman við rétt horn, t.d. þegar stélkambur er límdur á stélflöt.

Trélím — Hvaða trélím sem er virkar, bæði hvítt og gult. Það gula er harðara en það hvíta og pússast betur. Einnig er gott að eiga epoxý lím. Sekúndulím (CA-lím, tonnatak) er gagnlegt, en með því er líka hægt að gera mistök fyrr og örar en með öðru lími. Það er þess vegna sem ég mæli ekki með sekúndulími fyrir byrjendur. Trélím þornar hægar og gefur manni færi á að setja hlutina á sína réttu staði án þess að festa þá þar sem þeir eiga ekki að vera.

Sandpappír — Það eru til margar mismunandi gerðir af sandpappír. Þegar verið er að smíða módel úr mjúku efni eins og balsa, þá er ekki nauðsynlegt að hafa mjög grófan pappír og tilgangslaust að pússa með mjög fínum. Nokkrar arkir af pappír nr. 80, 120, 180 og 320 er yfirleitt nóg.

Pússikubbar — Búðu til þína eigin. Það er ódýrt og gagnlegt að líma ræmu af sandpappír á einhvern sléttan trébút með teppalímbandi.

Smjörpappír eða byggingaplast — Til að verja teikningarnar á meðan við erum að smíða. Það er afar leiðinlegt ef maður límir teikninguna við módelið.

Módel straujárn — Notað þegar plastklæðning er sett á módelið. Það er líklegt að þú þurfir að fara á Internetið til að kaupa svoleiðis.

Penslar — Það er oft sem penslar eru notaðir, t.d. við að mála með epoxýlími til að verja viðinn í kringum mótorinn. Það er þá best að kaupa þá ódýrustu.

Tangir — Það er góð hugmynd að kaupa sett af ódýrum töngum. Þær eru sérlega gagnlegar og við módelsmíði þarf ekki dýrustu gerðir.

Skrúfjárn — Það er mjög margt sem þarf að skrúfa í og á módel. Sett með sléttum, stjörnu og Tork er gagnlegt.

Sexkant lyklar — Boltar og skrúfur með sexkant haus eru mikið notuð í módelsmíði. Þess vegna er sniðugt að ná sér í gott sett af sexkant lyklum, sérstaklega í minni stærðunum. Þú gætir líka þurft sexkanta í bresku máli. Þeir fást á Internetinu.

Höfundarréttur © 2003 Paul K. Johnson
Þýtt með leyfi höfundar — g