Vænghleðsla flugvélar er mæling á hversu mikið ákveðnar flatarmálseiningar af henni bera.
Þegar við ræðum flugmódel, þá er vænghleðslan gefin í grömmum á ferdesimetra (g/dm2 – í Bandaríkjunum er talað um únsur á ferfet – oz./ft2). Reynsla af mismunandi módelum gefur þessum mælieiningum merkingu.
Hvers vegna vænghleðsla er mikilvæg
- Vænghleðsla er eina vísbendingin um hversu „þungt“ módel er. Raunveruleg vigt módelsins segir í raun ekki neitt.
- Módel sem er 25 kg á þyngd og með 460 dm2 væng er létt. Módel sem er 3 kíló en með 20 dm2 væng er hins vegar níðþungt og flýgur eins og slaghamar (og jafnvel ekki einu sinni svo vel).
- Því minni sem vænghleðslan er, því hægar þarf það að fara til að ná flugi og lenda. Það klifrar líka betur. Stórt módel getur haft háa vænghleðslu og flogið sambærilega og smærra módel með minni vænghleðslu vegna þess hvernig loftaflsfræðin virkar á mis stór módel. Gefum okkur sem dæmi að við höfum tvö nákvæmlega eins módel, nema að annað er stærra en hitt. Smærra módelið er með 90 sm vænghaf á meðan það stærra er með 270 sm vænghaf.
Minna módelið gæti haft vænghleðslu upp á 24 gr/dm2 á meðan stærra módelið er með vænghleðslu upp á 107 gr/dm2. Bæði þessi módel fljúga svotil eins þó vænghleðslan sé mismunandi vegna þess hve þau eru mis stór. Athugaðu að ég fann upp þessar tölur og ekki má taka þær bókstaflega.
Það er ágæt regla að segja þeim sem ætlar að prófa módelið þitt hver vænghleðslan er svo þeir geti gert sér grein fyrir því hve langt flugtaksbrunið þarf að vera svo módelið nái góðum flugtakshraða. Þetta er síðan nokkuð sem maður fær á tilfinninguna, því það eru engar ofrisaðvaranir á módelum eins og á full-stórum flugvélum.
Vænghleðsla reiknuð
Í þessu dæmi ætlum við að nota módel sem vegur 2,5 kg og er með 0,3871 fermetra væng. Þegar við reiknum vænghleðsluna verðum við að byrja á því að breyta þessum tölum í réttu einingarnar, grömm og desimetra.
- Breytum vængfletinum í ferdesimetra. Það eru 100 ferdesimetrar í hverjum fermetra þannig að við þurfum bara að færa kommuna tvö sæti til hægri.
- 0,3871 m2 = 38,71 dm2
- Breytum þyngd módelsins án eldsneytis í grömm. Það eru 1000 grömm í hverju kílói.
- 2,5 kg = 2500 grömm
- Deila þyngd með flatarmáli:
- 2500 g / 38,71 dm2 = 64,58 gr/dm2
Nú getum við rúnnað af tölurnar sem við notum og sagt að vænghleðslan á þessu módeli sé 65 grömm á ferdesimetra.
Ef módelið er með fleiri en einn væng, þá er flötur hvers um sig reiknaður og síðan lagðir saman til að fá þann vængflöt sem notaður er í útreikningum.
Höfundarréttur © 2003 Paul K. Johnson
Þýtt með leyfi höfundar – g