Tímabundin líming
Stundum þurfum við að líma módelparta saman, forma þá til og síðan ná þeim sundur aftur. Þá er spurningin hvernig er best að fara að því, því að líming sem heppnast, á ekki að losna aftur. Svarið er að finna í Bændablaðinu.
Á myndinni hér til hliðar er verið að setja nef á módel. Kubburinn undir mótornum er kyrfilega límdur á sinn stað, en það verður að vera hægt að ná efri hlutanum af. Þá er gott að nota smávegis hvítt trélim til að líma eina síðu úr dagblaði við kubbinn, rétt nóg til að það festist en ekki það mikið að það blotni alvarlega í gegn. Síðan er sett örlítið lím á neðri hlutann og eldvegginn og kubburinn límdur á. Þegar límið hefur náð að þorna, þá má nota hefil, raspa og sandpappír til að forma kubbana.
Þegar pússivinnunni er lokið er komið að því að ná kubbunum í sundur aftur. Það er gert með þunnum hníf, sem er smeygt inn í samskeytin þar sem dagblaðið er og snúið. Ef þetta er gert varlega og nógu þétt, þá kemur að því að dagblaðið, sem er samsett úr nokkrum lögum af viðartrefjum, rofnar og kubburinn losnar af. Þá er bara eftir að hreinsa afgangana af blaðinu af.