Þar sem flugtog virðist ætla að verða vinsælt á Íslandi fann ég texta um það á vefsíðunni IflyTailies.com sem fleiri gætu hagnast á að lesa.

Athugaðu að öll mál og vog eru gefin upp í metra kerfinu, þó höfundur hafi notað amerískar mælieiningar.

Hafið í huga: IFlyTailies, öðru nafni Alex, öðru nafni Schleppmeister, er hér að deila með öðrum eigin persónulegu reynslu af flugtogi. Flestar tillögur eru almennar, en sumar eru byggðar á togvélum sem hann hefur flogið (eins og Sr. Telemaster og Pilatus Porter 3.2m) og þeim svifflugum sem hann er vanur að toga (allt að 10.6m). Þú verður að auki að fylgja þeim öryggisreglum sem í gildi eru á flugsvæði þínu og landslögum! Ef þú ferð eftir tillögum hans verður þú hugsanlega betri togflugmaður og svifflugumaður. En hann getur ekki ábyrgst að ekkert komi fyrir. IFlyTailies viðurkennir ekki neina ábyrgð eða skaðabótakröfur vegna þessara leiðbeininga. Notist á eigin ábyrgð.

Fyrstu hugmyndir við undirbúning togvélar

Sr. Telemaster
  • Hugsa stórt: Meira er betra en minna! Þetta á við um mótorstærðir, stærð á módeli, styrkingar, snúningskraft á servóum o.s.frv.
  • Hvaða stærð á svifflugu (þyngd og vænghaf) ætlar þú að toga?
  • Of mikið afl er betra en of lítið
  • Hvaða hluta af togvélinni þarf ég að styrkja?

Togvélin undirbúin

Skrokkur styrktur fyrir tog

Mótor: Þumalputtaregla – togkraftur togvélarinnar verður að vera minnst 0,27 Hö/kg (þyngd svifflugu plús þyngd togvélar!). Þetta á við bæði um rafmagn, bensín og glóðarhausa. Tog getur heppnast með 0,18 – 0,24 Hö/kg, en þá þurfa báðir flugmenn að vera reyndir.

Spaði: Mikið þvermál (betra klifur), lítill skurður (við þurfum ekki neinn svakalegan hraða).

Endurbætt hjólastell: Gæti þurft að hækka hjólastellið svo spaðinn slái ekki niður. Þarf að geta þolað meiri þyngd (t.d. stærri mótor, styrkingar í skrokk, stærri rafhlöður, meira eldsneyti, o.s.frv.)

Togkrókur fyrir togvélina

Sleppikrókur: staðsettur á eða rétt fyrir aftan afturbrún á væng. Sleppiservó: málm tannhjól, betra að hafa meiri snúningskraft (torque) en lítinn. Búnaðurinn þarf að vera laus við hlaup (servó má ekki festast og lítið sem ekkert viðnám). Hægt er að kaupa góða togkróka bæði fyrir togvélar og svifflugur.

Styrking í skrokk: notaðu krossviðarlengjur til að styrkja bita báðum megin við fram- og afturbrúnir. Athugaðu að eldveggurinn sé nægilega sterkur til að þola stóran mótor. Skoðaðu alla uppbyggingu módelsins og athugaðu að það þoli álagið og styrktu það sem þarf.

Svifflugan undirbúin

Togfesting í svifflugu

Servó fyrir sleppikrók: málm tannhjól, of mikill snúningskraftur betri en of lítill. Búnaðurinn þarf að vera laus við hlaup (servó má ekki festast og lítið sem ekkert viðnám).

Ég mæli með: staðsettu sleppikrókinn þar sem þvermál svifflugunnar er orðið nógu mikið til að taka hann = minnst 10mm.

Toglínan sett saman

Almennt: Það má hafa mismunandi sterkar toglínur fyrir mismunandi aðstæður. Ef þú ert ekki vanur, þá getur verið gott að hafa miðlínu og slitlínur framan og aftan á henni. Slitlínan slitnar þá og kemur í veg fyrir tjón á svifflugu og togvél. Snúin lína með 35 kg slitþol er nóg fyrir litlar svifflugur upp að 3m vænghaf, svo sem Multiplex Easy Glider eða Multiplex Cularis. Ég nota 110 kg toglínu fyrir svifflugur upp að 25kg þyngd án vandkvæða.

Lengd á toglínu: byrjendur 20-25m; lengra komnir 30-40m

Samsetning á toglínu: tvö mismunandi bönd eru notuð – miðlína og ein slitlína á hvorum enda. Lengd miðlínu: byrjendur 13m; lengra komnir 22-30m. Efni: snúin nælonlína. Slitkraftur: 110kg Slitlínur: 3m. Efni: snúin nælonlína. Slitkraftur: 30kg. Flugmenn með reynslu og þeir sem fljúga stór-skala svifflugum þurfa hugsanlega ekki slitlínur. Festu miðlínu og slitlínur saman með segulnöglum svo ekki snúist upp á toglínuna. Gerðu lykkju á báða enda: önnur fer í togvélina og hin í sviffluguna

Flagg: festu flagg eða borða eða hvað annað sem sést vel á miðlínuna

Prófun á festingu í sleppikrók: þegar búið er að festa línuna í sleppikrókinn skaltu halda í lykkjuna með báðum höndum. Hreyfðu lykkjuna fram og aftur og athugaðu að toglínan festist hvergi á módelinu eða í sleppikróknum sjálfum –> þetta gæti orsakað vandræði við að sleppa ! Ef toglínan hreyfist ekki frítt skaltu losa hana úr sleppikróknum og festa hana aftur. Gerðu þessa prófun aftur

Förum að toga!

  • Samskipti: mikilvægust af öllu! Flugmenn verða að tala stanslaust saman.
    • Ræðið flugleiðina fyrir flugtak
    • Ákveðið í hvora átt (hægri eða vinstri) togvél og sviffluga beygja eftir að svifflugan sleppir
    • Tilkynnið þegar þið ætlið að sleppa
    • Tilkynnið lendingar
  • Fullkomið tog:
    • Aðstoðarmaður heldur vængum á svifflugu lárétt þangað til togvélin er farin að toga hana nógu hratt; eða má nota dollíu.
    • Svifflugan er örlítið fyrir ofan stélið á togvélinni.
    • Ekki of hratt, ekki of hægt.
    • Flugmaður togvélar tilkynnir hvenær hann beygir.
    • Flugmaður togvélar notar hliðarstýri (ekki hallastýri – þetta er mikilvægt!) til að stýra henni í þá átt sem hann vill fara. Hann notar hallastýrin bara til að koma í veg fyrir að togvélin halli í beygjum.
    • Beygjur eru frá flugmönnum. Þegar flogið er í áttina frá flugmönnum eru annað hvort teknar 90 gráðu beygjur til hægri eða vinstri (gott ef það er sterkur mótvindur), eða flogið í áttu (erfiðara).
    • Svifflugan eltir togvélina alltaf og tekur örlítið víðari beygjur.
    • Flugmaður svifflugu notað smá hreyfingar á hliðarstýri til að stýra flugunni í rétta átt (mikilvægt!) og notar hallastýri bara til að halda vængjum láréttum.
    • Flugmenn tala saman þegar þeir eru tilbúnir að sleppa.
    • Flugmaður svifflugu tilkynnir þegar hann er laus frá togvél eftir að hann sleppir.
  • Ekki eins gott tog:
    • Vængendinn á svifflugunni dregst eftir jörðinni og hún snýst um 90 gráður – sleppa umsvifalaust!
    • Motor í togvél deyr í flugtaki – sleppa umsvifalaust!
    • Sviffluga geigar harkalega til beggja hliða í flugtaki – sleppa umsvifalaust ef ekki er hægt að stjórna þessu með hliðarstýri!
    • Í toginu þarf að nota hæðar-, hiðar- og hallastýri mikið á svifflugunni – hægja á toginu; gæti verið vandamál með jafnvægispunkt? Sleppa strax ef ástandið gerist alvarlegt.
    • Sviffluga flýgur inn í beygju (= flýgur ekki víðari beygju en togvélin) – mjög hættulegt vegna þess að þá slaknar á toglínu og getur orsakað ofris á togvél eða báðum þegar línan verður aftur stíf.
    • Sjón: forðist að fljúga inn í sólina. Erfitt getur verið að sjá módelin við vissa afstöðu í hæð og flugstefnu.
    • Sleppikrókar virka ekki – byrjaðu að velja næsta módel ? Flugmenn togvélar og svifflugu geta reynt að lenda saman (það vídeó ætti að fá margar heimsóknir á YouTube).
    • Ef eitthvað annað fer úrskeiðis – notið almenna skynsemi; talið saman; athugið hvort það borgar sig að sleppa.

Lending

  • Togvélin:
    • Ekki gleyma að þú ert með toglínu hangandi aftan í þér! Ef það eru einhverjar hindranir eins og runnar, tré, girðingar, eða jafnvel hátt gras við endann á flugbrautinni, þá skaltu hafa í huga að línan getur flækst í og togvélin stöðvast mjög snögglega, jafnvel þó línan slitni. Þetta gæti orsakað eitthvert tjón. Þú verður að skoða togvélina vandlega til að sjá hvort hún hefur skaðast!
    • Ef það eru hindranir við flugbrautarendann:
      • Athugaðu hvort það borgar sig að fljúga í góðri hæð yfir brautina og láta toglínuna detta. Síðan getur þú lent vélinni á eðlilegan hátt. Athugaðu að toglínan dregst neðar en módelið þegar flogið er hægt!
      • Ef þú vilt ekki sleppa línunni (eða getur það ekki), þá verður þú að lenda innarlega á brautinni svo línan fari yfir hindranirnar (æskilegast) eða koma niður við bratt horn (ekki mælt með því)
      • Athugaðu hvort þú getur komið á ská inn á brautina þar sem eru hugsanlega færri hindranir
      • Ef það eru engar hindranir þá ættir þú ekki að vera í neinum vandræðum með að lenda á eðlilegan hátt með eða án toglínu
  • Svifflugan:
    • Athugaðu að það sé engin togvél á brautinni. Ef þú eða einhver annar notaði dollíu þá ætti aðstoðarmaður að taka hana í burtu áður en þú lendir