„Af hverju hefur þú ekki módel með þér næst?“
Grein skrifuð fyrir Large Model Association Journal
Skjöldur Sigurðsson, einn besti módelsmiður Íslands hefur farið til Cosford á Englandi í mörg ár til að vera þar við stórmódelflugkomu Large Model Association. Þar hefur hann eignast marga vini og hefur fengið meira frelsi til að að ráfa um svæðið og tala við módelmenn en aðrir gestir. Ekki leið á löngu þar til spurningin hér fyrir ofan fór að koma. Í hvert sinn fann Skjöldur ástæðu til að koma ekki með módel.
Síðan kom ágúst 2003. Skjöldur og flugmódelklúbbarnir í sameiningu fengu þau Steve Holland, Sharon Stiles og Richard Rawle til að koma til Íslands og sýna Íslendingum nokkur módel, bæði stór og smá og hvernig á að fljúga þeim. Spurningin kom upp enn eitt sinn og í þetta skipti hafði Skjöldur engar afsakanir. Steve og Richard skoðuðu módelin hans Skjaldar og lýstu því yfir að þau væru byggð samkvæmt ströngustu reglum þannig að þau gætu flogið á stærstu og bestu módelflugkomu í Englandi.
Það að fara til Englands með nokkur módel er ekki auðvelt verk. Skjöldur ákvað þó að fara þangað með þrjú: 1/8 skala DC-3 sem hann hafði byggt eftir teikningum frá Ziroli, Bud Nosen P51Mustang í skalanum 1/4,3, og 1/8 skala Ziroli B25 sem hann var um það bil að klára. Þessi þrjú risamódel urðu að fara í stóra kassa til að komast með flugi til Englands.
Kassarnir undir módelin urðu að vera stórir. Eftir að hafa raðað módelunum saman vandlega til að þau tækju sem minnst pláss, þá urðu kassarnir tveir 260 sentimetrar á lengd, 120 á hæð og 70 á breidd. Semsagt, stórir. Spurningin sem kom þá upp var hvort þeir kæmust inn í venjulega flugvél.
Skjöldur þurfti líka lið af aðstoðarmönnum sem vildu borga sjálfir undir sig til Englands. Bráðlega gáfu þrír Íslendingar og einn Englendingur sig fram, ásamt flugmönnunum tveim. Steve Holland ætlaði að fljúga tveggja-hreyfla módelunum, Richard Rawle átti að fljúga orrustuvélinni og aðrir í liðinu voru Jakob Jónsson, Akureyringarnir Guðjón Ólafsson og Guðmundur Haraldsson, og Stephen Atherton frá Englandi: hópur með meira en hundrað ára módelreynslu saman.
Til að koma módelunum saman fóru Skjöldur og Jakob til Englands viku áður en sýningin var, en nú lenti leiðangurinn í fyrstu (en ekki síðustu) keldunni: módelin fóru ekki um borð í flugvélina. Eftir að hafa leitað um allt á Heathrow, kom skýringin í ljós: hlaðmennirnir á Heathrow snerta ekki á neinu sem ekki flokkast undir það að vera „ferðataska“ og vegna þess að hlaðmennirnir á Íslandi vissu þetta, þá settu þeir kassana aldrei um borð í velina. Nú þurfti Skjöldur að fjarstýra með símanum sínum því að módelin færu frá Íslandi til Englands. Eftir þrjá taugastrekkta daga gerðist það loksins með tregri aðstoð þriggja flugfélaga. Að lokum flutti Blue Bird fyrirtækið módelin til Austur Anglíu í Englandi þar sem Steve og Skjöldur gátu sótt þau eftir langa ferð í sendiferðabílnum.
Nú tóku Steve og Richard við og byrjuðu að „laga“ módelin. Næstumþví allar raflagnir voru rifnar út og í staðinn voru settir vírar og tengi sem áttu að vera örugg samkvæmt enskum stöðlum. Mótorarnir voru skoðaðir innan og utan og B25 módelinu testflogið. Steve og Richard flugu líka Douglasinum og Mustanginum og allt fór eins og smurt, nema að smá óhapp í lendingu beyglaði hjólastellið á Douglasinum.
Framhald …